24.3.05

Hvarf kúlsins

Var í teinóttogsvartajakkafataverslunarleiðangri í JMJ í dag. Fór í fín föt og greiddi mér síðan næstum því, allt fyrir þennan verslunarleiðangur. Minn nýfengni hégómi sem hefur verið í þróun í svona 2-3 ár blómstraði innan um glansandi jakkaföt og háa verðmiða. Ég labbaði um búðina meðan ég beið eftir afgreiðslu og reyndi að flagga mínu alkunna kúli af krafti á meðan.

Það voru nokkrir inni í búðinni og því þurfti ég að bíða í smá tíma. Ég þóttist vera að skoða föt á meðan og brosti framan í fólk sem ég labbaði hjá og ég var - hmmmm- hélt ég bara í góðum málum.

En svo gekk ég fram hjá einum af speglunum í búðinni og sá afar óskemmtilega mynd æpa á mig í speglinum. Buxnaklaufin var galopin, svo opin að það var eins og hún væri klemmd í sundur. Ég var snöggur að renna upp en úff! kúlið var horfið.

Smellti mér samt á tvenn jakkaföt, það hlýtur að vega svolítið upp á móti klaufaskapnum - helvítis buxnaklaufaskapnum.