26.3.05

Gangan langa

Fór með systur minni og mági í píslargönguna í gær sem liggur umhverfis Mývatn. Gangan er í heild um 38 km en margir taka hlé á göngunni og stökkva upp í rútu á leiðinni sem fylgir hópnum. Ég ætlaði að vera einn af nöglunum sem labba alla leið (sérstaklega þar sem sjötugar kellingar stormuðu áfram eins og Kenýamjónur fram hjá manni ef maður stoppaði til að reima skóna eða eitthvað) en eftir 22 km var ég búinn að fá nóg - og við öll þrjú. Svolítil vonbrigði en mér til huggunar varpa ég fram þeirri afsökun að ég var í skóm sem ég keypti daginn áður og það er ekki þægilegt að labba langar leiðir í glænýjum skóm. Það var tásæri sem dró úr mér mesta kjarkinn.
Eftir gönguna fórum við í eins konar bláa lón norðlendinga sem er þarna rétt hjá Mývatni og það var alveg himneskt. Þar sá ég samt svolítið sem staðfesti grun minn um það að engin takmörk eru fyrir því hvað fólk tekur upp á. Ég lá ofan í 100 gráðu heitu vatninu í mestu makindum þegar ég finn allt í einu reykingarlykt. Lít hissa í kringum mig, "það er enginn að reykja hér!" jú! Gömul og ægilega forljót kelling chillaði ofan í vatninu með sígarettu. Svo fékk hún sér aftur og aftur.. einmitt staðurinn til að keðjureykja á.