8.12.05

Skiptimiðalögga, mandarínur og hringrás lífsins

mm... ég er búinn að vera að hakka í mig mandarínur að undanförnu mér finnst fátt jólalegra.

Mandarínur eru eins og lífið, stundum súrar, stundum fullar af steinum – en yfirleitt þó sætar og góðar. Já lífsins leið er stundum grýtt en það er ekkert nýtt.

Það sem er hins vegar nýtt er kornleysi engjaþykknisins sem ég var rétt í þessu að stela frá Ásdísi. Opnaði dolluna og við mér blöstu sárlega fá korn í hliðarhólfinu og greinilegt að annaðhvort er verið að spara eða átöppunin hefur eitthvað klikkað.

Þetta vekur mann til umhugsunar um hve lífið er fallvalt. Ef það er ekki hægt að treysta engjaþykkni, hverju er þá hægt að treysta? Ég finn til þess að þetta sykurjukk hefur einu sinni verið inni í belju, úti á akri, uppi í skýjum og út um allt. Það hefur verið pissað á jukkið, hrækt á jukkið og jafnvel skitið á jukkið. Hringrás lífsins er mikil og flott en engjaþykknið var samt ágætt.

Eftir síðasta tópasfyllerí var ég að spá í að taka upp mottóið “eftir einn ei drekki neinn”...

En tappinn á nú örugglega eftir að losna af einhverjum flöskum bráðlega í einhverju snobbkokkteilkvöldi hjá okkur Ásdísi. Var að kaupa Grenadín sem virðist vera í annarri hverri kokkteiluppskrift sem maður sér og þá er ekkert að vanbúnaði.. það er að segja - eftir próf nota bene!!!

Eftir einn ei aki neinn segiði. Lenti í strætóbílstjóra áðan og vá! Vildi fá að þreifa á skólakortinu mínu (sem ég týndi í gær en það fannst aftur (sem betur fer (takk ýrr!)))sem ég rétti honum og svo kom næsti inn og hann fór í hörkurifrildi við hann því skiptimiðinn var nákvæmlega sólarhringsgamall. Hann hleypti strákgreyinu (strákurinn var eitthvað pínu fatlaður, spastískur og slíkt!) inn og hringdi síðan æstur í strætóinn sem strákurinn kom úr og komst þá að því að villan var þar. Tveimur stoppistöðvum seinna labbaði Strætóbílstjórinn aftur í og sparkaði í fótinn á stúlku sem sat skáhallt í sætinu með löppina út á gang og sagði henni að sitja beinni! úff! einn ei aki! plííís..

En jæja best að fara að leggja sig!

btw - mandarínute er gott!