14.4.05

Sakna Holtsins svolítið..

Var að éta nestið mitt í strætóskýli í grafarvogi í dag, þurrt brauð með vondri skinku og slarkfæru salati. Hugsaði þá til Holtsins. Fyrir framan skýlið var grasbali (hálfgert holt) og sólin skein og það var fagurt um að litast svo að ég var bara í goody fíling þrátt fyrir allt.

Nett gola lék um kinnar og ég dundaði mér við brauðið en sá þá mann og hund koma eftir gangstéttinni. Allt í lagi með það, þangað til maðurinn tekur plastpoka upp úr vasanum, samskonar plastpoka og ég notaði undir brauðið. Þá varð mér ljóst erindi hunds og fylgdist síðan lítt spenntur með þegar hann hljóp snuðrandi um balann (holtið), leitandi að hentugum stað til að kukka.

Þegar ósköpin voru gengin yfir og hundur og maður á braut, með pokann fullan, varð hið vafasama bragð salats og brauðs enn vafasamara. Golan frá holtinu vakti skyndilega ekki jafn ferskar og skemmtilegar tilfinningar. Þetta kallar maður að gefa skít í holtið.
Já ég sakna Holtsins.