4.4.05

Samofin örlög...

Töffarinn og nördið (sönn smásaga um strætómissi)
""__
Sit í sófanum heima og vafra á netinu. Fylgist með ofnklukkunni og sé á grænum stöfunum að einungis 5 mínútur eru í að strætó fari.. úff best að drífa sig, ég er tvær mínútur að labba að Hlemmi. En bara eina mínútu í viðbót á netinu - og eina til... Æ! Tvær mínútur í að hann fari!!
Gríp dót, bursta tennurnar á 8 sekúndum og klæði mig síðan í úlpuna á meðan ég hleyp niður að Hlemmi. Á þessari stundu er ómögulegt að segja hvort ég nái.. það er sekúnduspursmál.

Á leiðinni sé ég töffara. Ekki í frásögur færandi nema að þessi töffari virðist vera að flýta sér, rétt eins og ég. Gæjalegur og sportlegur jakkinn flaksast ankanlega því hann labbar svo hratt og kúl hárgreiðslan er ekki í stíl við stressað augnaráð og örvæntingarfullt látbragð hans.

Ég finn til ákveðinnar samkenndar þegar ég hleyp fram úr honum og hugsa með mér hvort hann reyni líka að ná strætó. Tengdi leið 15 nördið og töffarann saman þessar nokkru sekúndur sem eftir voru að Hlemmi?! Ég hleyp eins og fætur toga en hann má náttúrulega ekki, stöðu sinnar vegna, gera meira en að ganga hratt.

Allavega.. þegar ég kem að Hlemmi sé ég hvar leið 15 er að renna úr sjónmáli og 8 sekúndurnar sem fóru í að bursta tennurnar kostuðu mig 20 mín. Hrikalega gremjulegt er að missa af strætó og ákveðið ferli sem maður gengur í gegnum á svoleiðis stundum. Það byrjar á því að maður glápir á eftir vagninum með miklum reiði/gremjusvip þar til hann sést ekki lengur.

Ég setti upp svipinn og byrjaði að glápa og sé þá út undan mér töffarann. Við litum snöggt hvor í annars augu og skildum báðir að örlögin verða ekki umflúin, sama hver staða manns er í þjóðfélaginu. Örlög okkar voru samofin. Hann missti af strætó því hann var of mikill gæi til að hlaupa en ég missti af honum því ég fer alltaf út úr húsi á síðustu stundu.
Hver hefur sinn háttinn á í heimsku hversdagsins.