24.12.04

hvítlauksísinn og guð III - the end

Að fara í jólaglögg í 16 stiga frosti og snjó á þorláksmessu, það er gaman, það er jólalegt. Nú er glöggin búin og 24. des er nýbyrjaður, rúmlega tveggja klst gamall. Ég þarf að drífa mig að fara að sofa en best að lýsa lokahnykk hvítlauksíssævintýrisins fyrst.

Hvítlauksísinn verður líklegast ekki prófaður aftur. Ég var í jólaglögg í kvöld, spennan út af hvítlauksísnum lá í loftinu meðan dreypt var á glögginni góðu. Jólaglögg er furðuleg á bragðið en ótrúlega skemmtileg. Ég var að vona að það sama gilti um hvítlauksísinn. Átta manneskjur voru samankomnar og fengu allar eina kúlu af ísnum góða þegar glöggin var búin. Svona leit tölfræðin út:

1 gat ekki hugsað sér að smakka þegar lyktin barst vitum.
2 fengu sér einn bita og fussuðu og sveiuðu og vildu ei meir.
1 gat með herkjum klárað ísinn en var hálfbumbult á eftir.
4 kláruðu ísinn vandræðalaust en voru mishrifnir af eftirbragðinu. Ég og Mummi bróðir vorum allavega ánægðir með hið ríka hvítlaukseftirbragð.

Þetta var vel tilraunarinnar virði, samt einum of furðulegt fyrir minn smekk. Guð virðist að mínum dómi ekki hafa gert ráð fyrir að þessi snilldarhráefni væru sett í eina hít og því býst ég ekki við að prófa þetta aftur. Ég anga enn af hvítlauk, það er ekki jólalegt, en það er gaman!