22.12.04

ég vildi ég væri klár

Af hverju þarf ég alltaf að vera eins og auli í kringum fólk, gera eitthvað vitlaust. Ég fór í þrjár heimsóknir í gær og tókst að heimskast í þeim öllum.
Fyrst fór ég í sveitina að hjálpa ömmu við ýmislegt. hún bað mig m.a. að vökva blómin en bara alls ekki sulla vatni á ægilega fínan silkijóladúk, einhvern sem hún tekur alltaf fram á jólum og heldur mikið upp á. Ég sullaði náttúrulega einhverjum dl á dúkinn en það reddaðist.
Svo heilsaði ég upp á gamla píanókennarann minn. Þar sá eg hljóðfæri í stofunni, horfði á það og spurði hvort einhver væri farinn að læra á gítar í fjölskyldunni. Hann sagði bara að dóttir sín væri að læra á selló og þegar ég leit aftur sá ég að þetta var vissulega selló en ekki gítar sem eru dáldið ólík hljóðfæri. Ég fékk slæman kjánahroll út af sjálfum mér þá. (sérlega slæmt þegar maður er sjálfur að læra á hljóðfæri að þekkja ekki gítar frá selló)
Svo fór ég í mat til bróður míns og þar var einnig vinur hans. Þegar ég fór heim um kvöldið fór ég náttúrulega í úlpuna mína en greip líka yfirhöfn vinarins sem ég hélt að væri mín (flísjakki sem er soldið líkur jakka sem ég á.. en samt ekkert mjög) og hélt á henni heim. Ég velti því fyrir mér á leiðinni heim af hverju ég hefði verið bæði í úlpu og flísjakka en svo hringdi bróðir minn seinna um kvöldið þegar vinur hans ætlaði heim, vitandi strax hver sökudólgurinn var þegar flísið fannst ekki.

Ég var edrú í allan gærdag.