25.12.04

Jólahaldið

Hvað heldur Helgi um helgihaldið?

jólin eru snilld. Mamma kokkandi, ilmurinn lokkandi, fjölskyldan rokkandi. Maturinn (hamborgarhryggur með öllu tilheyrandi) var frábær, ég og elsti bróðir minn sáum um sósuna, hún var fín.
Ég sá um eftirréttinn, gerði vanilluís og framreiddi með honum banana, jarðarber og súkkulaðisósu. Súkkulaðisósan var aðeins of sæt., en ekki er sætt óætt, heildin slapp.
Eitthvað virðist ég verða skynsamari með árunum því ég borðaði ekki yfir mig þessi jól. Ég borðaði mig saddan og lét það nægja en yfirleitt hef ég borðað það mikið að ég eigi erfitt með gang. Ég er afar ánægður með að hafa sloppið við núna!

Húmor kvöldsins var sokkapar, sem fylgdi gjöf frá bróður mínum og mágkonu, með ósamstæðum sokkum. Eitthvað verið að skjóta á það að ég bregð mér stundum í mislita sokka. Þau höfðu fyrir því að kaupa tvenn pör (eitt svart og eitt ljósgrátt), taka einn sokk úr hvoru pari og festa þá saman á viðeigandi hátt, þannig að ég hélt að þau hefðu keypt parið svona! Svo fékk ég líka peysu, matreiðslubók, hitakaffikönnu, nammi, SEINFELD spólu og margt fleira. Seinna um kvöldið komu síðan fleiri í heimsókn og systurbörn mín komu m.a. með TWISTer spilið sem þau fengu í jólagjöf, þannig að ég gat loksins prófað þetta víðfræga spil. Úff þetta er illa partíspilið maður! rosalega skemmtilegt!

Og nú er síðan í hádeginu, að byrja önnur átveisla, hangiketið, held að það komi 21 í mat!! Best að fara að hjálpa til.

ps: Gubbi minn! Hvað er málið með veðrið? -10°C, 10 vindstig, snjókoma og skafrenningur í allan gærdag, og að mér sýnist ennþá! Er ekki málið bara aðeins að slaka?