26.12.04

jóladagur - margt í gangi

Það byrjaði ömurlega þessi jóladagur! Ég og Siggi bróðir fórum og sóttum afa í hádegismatinn. Við þurftum að moka risastóran skafl í götunni bara til að eiga möguleika á að komast út úr henni, en það var allt í lagi. Það ömurlega var að það hljóp hundur fyrir bílinn á leiðinni til afa og bíllinn rakst utan í hausinn á honum. Ég var búinn að hægja dálítið á mér en þetta var samt talsvert högg. Þetta var afskaplega fallegur hundur, meðalstór, hvítur og svartur. Eigendurnir þustu með hann heim til sín og ég veit ekkert hvernig fór en ég vona bara að hundgreyið jafni sig. Þetta var með ömurlegri tilfinningum sem ég hef fundið þegar ég heyrði dynkinn í bílnum er hundurinn rakst í hann. Ég hef nú aldrei lent í neinu óhappi keyrandi áður.

Ég hugsaði um þennan hund í allan dag og hann skemmdi dálítið stemmninguna fyrir mér. En í kvöld (og nótt)vorum við systkinin að spila og dreypa á rauðvíni, það vantar aldrei örlætið á rauðvínið hjá Mumma bróður og Hafdísi konu hans! Einnig var Whiskey í boði og það var helvíti gott, fékk mér samt bara eitt glas af því, hélt mér annars bara við rauðvínið. Spiluðum nýja popppunktsspilið og það var bara ágætt spil.

Ég vona að það gerist ekkert svona leiðinlegt eins og með hundinn á morgun og ég verði alveg búinn að losna þá við þetta netta samviskubit sem ég ber nú.