27.12.04

Þegar hið slæma er það slæmt...

...að það verður ekki verra,
þá er það oft búið að fara hringinn og orðið á furðulegan hátt að snilld.
Bróðir minn Mummi fékk í jólagjöf jóladisk með William Hung, gaur sem "sló í gegn" í American Idol með laginu She bangs. Diskurinn heitir Hung for the holidays og er svo lélegur að það er hreinlega gaman að hlusta á hann.
Drottning hins lélega á Íslandi hlýtur að teljast Leoncie sem er svo einlæg og krúttleg í tónlistargjörningi sínum að það er ekki hægt annað en að heillast af ósómanum og flokka hann sem tæra snilld.

Í kvikmyndageiranum eru svona persónur víða og eru góð dæmi margar myndir með Jean Claude Van Damme og Steven Seagal. Myndir með þeim sem eiga að vera spennandi og svalar eru oft svo skemmtilega hallærislegar að þær verða að bestu gamanmyndum. Jafnvel er hægt að setjast niður með hláturmildri persónu og horfa á viðbjóð eins og The Bachelorette á skjá einum, og túlka það sem fyrir augu ber sem snilldarskemmtiefni. John Travolta á líka góða spretti í þessum málum og alltaf spennandi að sjá mynd með honum (eins og hann var nú svalur í gamla daga greyið!)

Í alvörulífinu finnst mér páfinn bera höfuð og herðar yfir aðra hvað varðar fáránleikasnilld. Hvað er þetta með hann? ég sá hann jólamessa núna í gær og það er í fyrsta lagi ekki hægt að sjá hvort hann er lífs eða liðinn og í öðru lagi skilst ekki eitt einasta orð sem hann, segir samt hlusta milljónir agndofa á hann, bambúkka eitthvað út í loftið. incredible!

En best að enda á því að hrósa nágrannanum á móti fyrir risastóran og flottan snjókall sem er kominn upp fyrir framan hjá þeim, nauðsynlegt fyrir hverja götu að hafa einn Snæfinn.