26.3.06

einum of halló?

Þaut upp í bíl í gær og þurfti að komast 5 mínútna leið á tveimur mínútum. Ég setti upp sólgleraugun og kveikti á útvarpinu til að koma mér í gírinn. Leiðinlega röddin á rás 2 var ekki að gera sig fyrir mig og skipti ég því snarlega um rás. Fyrir varð Barnarásin og á henni hljómaði: Áfram áfram áfram bílstjórinn! Talandi um viðeigandi. Ég hækkaði vel í og þaut af stað en lækkaði skömmu síðar í græjunum og hugsaði - einum of halló?

ja hækkaði síðan fljótlega aftur í og þaut minn veg...

22.3.06

Hlemmur

Jæja ég fór í strætó í fyrsta skipti í langan tíma í morgun. Þurfti að bíða á Hlemmi í 10 mínútur og naut þess á meðan að tékka á mannlífinu.

KB banki, sem er nýbúinn að taka lán upp á ca. 50 milljarða kallaðist skemmtilega á við kallana sem voru að spá í málunum inni á biðstöðinni.

Ég færði mig nær mjóróma gaurnum sem var að lýsa fyrir gamla kallinum í þrönga snjógallanum hvernig nýja strætókerfið legðist í sig. Hann lýsti í smáatriðum hvernig væri best að komast hingað og þangað í borginni og var greinilega mikill strætóspekúlant. En tengingin við KB banka varð skemmtilega író-nísk þegar hann fór að tala fjálglega um það þegar hann komst í álnir fyrir utan Kolaportið. Ruslapoki eftir ruslapoki af heilu drasli var borið út og hann sagði spenntur frá hvernig hann veiddi það heila upp úr og safnaði því saman til að selja næstu helgi,.,. í Kolaportinu.

Svo fór ég í skólann og lærði það að Ikea leiðbeiningarbæklingur um hvernig á að setja saman fataskáp er uppfullur af misrétti; gegn konum, samkynhneigðum, svörtum og asískum.

Heil Helgi!

20.3.06

ostur

Við fórum í dýrðlegt matarboð í gærkvöldi hjá Nonna bróður og Tótu.

Þar fengum við læri sem var fyllt alls kyns ostum og mjúkum sveppum mmmmmmmmmm...

Mér varð hugsað þegar við keyrðum í Grafarholtið hvað þetta væri mikið út í sveit og hvað þetta væri óaðlaðandi að búa lengst út í rassgati. Er okkur varð keyrt upp að íbúð hans breyttist sú ímynd mín á svipstundu þegar ég sá þetta líka svakalega útsýni sem tók á móti oss..

núna langar mig bara pínu í íbúð í Grafarholtinu. Gvendargeisla eða Kenjakitli eða einhverju álíka góðu nafni..

17.3.06

já það er allt til

Ef einhver hefði sagt mér fyrir 12 árum að ég ætti eftir að horfa á myndband með þessum gaur kl. hálf fjögur á fimmtudagsnóttu hefði ég brosað út í annað..

en best að drulla sér í draumalandið

brought to you by DH!

10.3.06

búmm búmm tsjak búmm búmm búmm tsjak

búmm búmm tsjak búmm búmm búmm tsjak

Í bílskúrnum sem er upp við stofugluggann er hljómsveitaræfing 2-3 x í viku...

arg

i hate ya all!

8.3.06

...

...af þeim völdum get ég ekki annað en velt því fyrir mér. Er Silvía Nótt fyndin?

Maður á sosum aldrei að greina húmor - bara njóta!

En metið hjá mér í Sudoku er komið niður í 3 mínútur sléttar.. hvað sem öðru líður.

5.3.06

AFI (1919-2006)

Afi var jarðaður í gær. Ég hef alltaf kunnað illa við dauðann og átt erfitt með að umbera hann. Núna þegar maður missir í fyrsta skipti einhvern nákominn hefur það ekkert breyst nema síður sé. Afi var reyndar heilsuveill undir það síðasta þannig að á vissan hátt var þetta léttir. En mig langar að fara aftur um nokkur ár þegar hann var hraustari og hitta hann þá og spjalla.. get það reyndar í huganum en það er ekki það sama.

2.3.06

nýjasta æðið er..

..Ávaxtadrykkir!

Blandarinn er búinn að vera í stöðugri notkun síðustu dagana og nýtur Ásdís góðs af þessu æði. Stöðugt nýjar tegundir af drykkjum en verst hvað svona ávextir eins og ananas og jarðarber eru dýrir. En ég læt það ekki aftra mér og er búinn að prófa alls kyns blöndur. Þær bestu hafa mér fundist:

Kynbomban:
1/4 vatnsmelóna
1 appelsína
1 lítil askja jarðarber
10 klakar

(Brá afgangnum af þessum drykk inn í frysti og við átum hann síðan sem krap og það er sko ekki krapp!!)

Hálfvitinn
1/2 ananas
1/2 banani
5 jarðarber
1/2 sítróna
1/4 l vatn

The piss
2 appelsínur
1/4 hunangsmelóna
10 klakar og smá vatn

Af þessum var eiginlega The piss bestur, gylltur og svalandi!