22.6.06

af næturvakt III

djöfull er ég þreyttur
tikkið í klukkunni er að æra mig
ætti ég að færa mig
inn í stofu
nei úff ég sá vofu
úti er bjart
en inni er svart
augun fýld
því enga hvíld
þau lengi lengi
hafa fengið
ég þrái svefn í mjúku rúmi
með mjúkri konu í dökku húmi
en það líða nokkrar stundir
áður en fundir
mín og rúmsins kæra og kærustunnar eiga sér stað
en klukkan tikkar og bráðum já bráðum
bráðum er nóttin búin og þá byrjar nóttin mín

þetta er fínt djobb.. en þegar maður er búinn með bókina um Jeltsín og nennir ekki niður að sækja aðra þá er leiðinn ekki lengi á leiðinni. En! sjálfskaparvíti - - annars fínt djobb.. úbbs ég var búinn að segja það.. jæja - en...

Gat valið um tvennt í sjónvarpinu áðan um tvöleytið. Beverly Hills 9102938910 eða HM. Enn og einu sinni varð karlmennskan undir og kvenleikinn er að rústa þessu með 10 stigum gegn tveimur. Það er eitthvað við þessa Beverly Hills þætti sem virkar eins og tímavél fyrir mig. Ég fæ nostalgíukast. Þessir gömlu góðu dagar þegar gemsinn var ekki til og fötin, vá fötin

18.6.06

af næturvakt II

Nú er ég ógurlega þreyttur, og er í einhverji annarlegri kaffi/þreytu-hálffjögur að morgni vímu. Ég er þreyttur, Ég er þreyttur.

Væri minna þreyttur ef ég væri ekki svona þreyttur. Ég verð stundum svo þreyttur á ýmsu. þreyttur á þessu tuði öllu.. í þjóðfélaginu

stanslaust tuð..

Ég á hvergi heima, ég fæ jafnlág laun og kona þar sem ég sækist alltaf í þessi láglaunadjobb en er samt hluti af kúgurunum þó ég finni mig ekki heima þar. Ég var eini karlinn sem útskrifaðist í mínum árgangi af hljóðfærabraut í lhi, við vorum teljandi á fingrum annarrar handar karlarnir í kennaranáminu í vetur og nú vinn ég á vinnustað þar sem ég er eini karlinn!

Ég er þreyttur..

Mér finnst ekkert skrítið þó mér finnist ég ekki tilheyra neinum hópi þar sem ég er konulegur karl og kristinn heiðingi með fordóma gagnvart múslimum (en finnst listmenning þeirra þó afar heillandi). Ef maður tilheyrir hvorki kven- né karlkyni er alveg ljóst að það eru ekki margir möguleikar eftir!?!
Ég vildi óska að það væri harmónía þar í millum.

Ég svitna á enninu út af þessari koffeinvímu, ég svaf bara fjóra tíma í morgun, frá níu að morgni til hálf eitt. Vaknaði þá við einhverja helvítis graðhestatónlist frá nágrönnunum.

Ég hlæ oft að Beverly Hills núna síðustu daga!
En jæja ég ætla að vona að ég verði ekki svona þreyttur á morgun eftir góðan morgunsvefn.. hvorki þreyttur á sjálfum mér né þjóðfélaginu. Best að halda áfram með ævisögu Boris Jeltsin

Djöfull á ég eftir að verða leiðinlegur gamall karl held ég.. gamall tuðkarl en ég keppi að því að svo verði ekki.. keppi að því!

Guð gefi mér visku til að umgangast og skilja konur betur
Guð gefi mér þrótt til að fást við þjóðfélagið og skilja það
Bush gefi mér orðin "we´ll find a peaceful way out"
megi verðbólgan hjaðna og íbúðin seljast
amen

13.6.06

ströggl

Kvenleiki vs Karlmennska . . . . . . . . 5 - 1

þetta er burst

af næturvakt

Enn blogga ég á næturvaktinni, enda eina netið sem ég hef aðgang að. Það er hálf draugalegt hérna núna, geðveikt hvasst úti og einhverjir skellir í loftræstingunni. Ég er farinn að vinna aftur eftir æðislegt helgarfrí þar sem ég og Ásdís dunduðum okkur við að setja niður kartöflur m.a. Nú þurfum við bara að redda húsgögnum til að fylla upp í allt flæmið sem íbúðin okkar óneitanlega er.

Það virðist enginn hafa áhuga á að kaupa Skarpó sem setur yndið við að flytja í nýja íbúð í svolítið annarlegt samhengi... en well...

og b.t.w. ég ritskoða mig ekki! ** eru bara skopádeila
...ríða, kúkur, skora...

sko!

9.6.06

þögnin rofin!

Já, ég er að stelast til að blogga á næturvakt.. sé ekki að það geri nokkrum neitt.

Karlmennska vs kvenleiki 0 - 3

Ég er ekki búinn að sjá neinn leik í HM en búinn að sjá 3 Beverly Hills 91092093 þætti á Skjá1. Erfitt að viðurkenna en þó engu að síður sannleikur. Að sjá þessa B H þætti vekur upp skemmtilegar nostalgíutilfinningar og gaman líka að sjá Melrose Place, þátt sem ég hataði á sínum tíma og gaman að rifja upp hatrið sem bjó í brjósti 14 ára drengs um miðjan 10. áratuginn.

Að lokum ein spurning: Er boðlegt að eiga salt og piparstauk, þar sem staukarnir eru svín að r**a?