24.12.06

jólaskap IV

Gleðileg jól!

jólin og áramótin eru svo skemmtilegur tími. Næstu áramót mun ég strengja tvö áramótaheit, elda aðeins oftar og vera góður faðir. Það ætti að nægja!

Gleðileg jól!

23.12.06

jólaskap III

Ég fæ stundum skemmtilega tilfinningu, mínútu og mínútu í senn.. sem mætti flokka sem jólaskap. Þetta jóladæmi er alls ekki dautt úr öllum æðum þó gleðin sé ekki alveg jafn fölskvalaus og fyrir áratugum síðan. Svo er heldur ekki hvasst lengur (loksins) sem veldur mér skemmtilegum hug líka!

En næsta bloggfærsla verður án vafa: Gleðileg jól.. og eitthvað hamingjuskraf (happy talk ú je) en þangað til; Gleðileg jól!

18.12.06

hamingja

Ég er eins og lítið hamingjusamt barn þessa dagana, þrátt fyrir dimmu og drunga. Ástæðan er:

2 brauðsneiðar
hrúga af lífrænu Sollu hnetusmjöri á aðra sneiðina
hrúga af lífrænni Sollu extra virgin kókosolíu (olían verandi virgin ekki Solla) á hina sneiðina
bananasneiðar og vel af hunangi sett ofan á hnetusmjörið og brauðsneiðunum skellt saman.
Svo fæ ég mér rjúkandi tebolla með.

þvílík hamingja.. Ég hlakka til að vakna á hverjum degi og fá mér eitt svona kvikindi í kaffitímanum.
mmmmmm..

13.12.06

alas

Ég finn ekki tennisolnbogahlífarnar og nú þarf ég að reyra handlegginn á mér með júdóbelti í hvert skipti sem ég spila á píanó.

Græna beltið.. og Chopin

12.12.06

flókið líf

Þegar ég var lítill var lífið einfalt. Nú er það orðið flóknara. Núna traðkar maður ýmsum um tær á ýmsan hátt ef maður passar sig ekki. Ef maður hefur einhvern vilja til að koma vel fyrir þá er það ekki nógu gott. Það kristallast mjög vel t.d. í þessu einfalda lagi hér (þ.e. eitt sinn einfalda lagi):

Ég vil líkjast Daníel og ég vil líkjast Rut
Rut er svo fín og góð
Daníel fylltur hetjumóð
Ég vil líkjast Daníel og ég vil líkjast Rut

(eitthvað svona)

Þetta söng maður grunlaus í æsku, en fyrir ekki mörgum árum fór fólk að benda mér á misræmið í þessu: góðar stúlkur, hetjufylltir strákar... og lífið flæktist.

Núna í vetur flæktist það enn þá meira þegar mér var bent á að þetta væri trúarlegt líka... þá eru semsagt komnar ennþá fleiri tær til að traðka á... soneretta.

Mig hefur lengi langað til að stjórna barnakór en mig langar það ekki lengur, það eru of margar tær til að traðka á og ég hata tær. Það er nógu erfitt að feta hinn gullna meðalveg í píanókennslunni, hvað þá þegar maður fer að syngja helvítis textann.

8.12.06

útvarpið okkar hatar gyðinga!

Á tímum alhæfinga og upphrópana þá held ég að það megi fullyrða að útvarpið okkar hati gyðinga. Við settum aðventuljós í eldhúsgluggann við hliðina á útvarpinu og eftir það er varla hægt að hlusta á útvarpið fyrir truflunum. FM létt 96,7 næst sérstaklega illa. Alveg sama hvernig ég sný ljósastikunni það er eintómt surg. Ef ég smelli 7 arma ljósastikunni hins vegar niður á gólf þá er allt í þessu fína.

7.12.06

nostalgía

Af hverju getur maður ekki lengur haft gaman af einföldum hlutum eins og að safna prumpi í flösku?

Those were the days my friend!

5.12.06

Falleg ssztúnd

Lífið getur verið ljótt, jú jú...

en, inn á milli koma falleg augnablik.

Einhvern tímann í haust var ég að fara til vinnu á Kópavogshæli kl. kortér í 8 á laugardagsmorgni. Eins og gefur að skilja var töluverð þreyta í loftinu og skapið ekki sérstaklega klappvert.

En ég ræsti bílinn eins og gengur og bakkaði út af stæðinu eins og gengur og keyrði af stað eins og gengur en byrjar þá ekki að óma söngurinn Heims um ból þegar ég fer yfir fyrstu hraðahindrunina af mörgum á leið í Kópavoginn. Nánar tiltekið búturinn:

...en gjörvöll mannkind, meinvill í myrkrinu...

Þá hafði jólaspiladósakirkjan mín orðið eftir í bílnum og þessi stutti bútur hljómaði frá henni.

Ef þetta var ekki Gubbi að létta mér lundina í morgunsárið þá veit ég ekki hvað!

(Nema það hafi verið hristingurinn frá hraðahindruninni?!)

Alltént var þetta falleg stund

jólaskap II

Ég kemst í hátíðarskap, þegar úti er snjór og krap.

Ótrúlegt hvað þetta er lífseigur snjór hérna. Búinn að vera í einhverjar vikur.
En koma svo Gubbi, meiri snjó, meiri snjó.

(En ekki það mikið samt að Micran festi sig).