klósett og Akranes og margt fleira... -- skírn og kaffi og...
Áður en kom að skírninni var mér mál að pissa, sem er í frásögur færandi:
í grunninn hef ég nokkra ímugust á almenningsklósettum (mismunandi eftir dagsformi) en þegar ég steig inn á almenningsklósettið á sjúkrahúsinu fannst mér ég í fyrsta sinn í góðum höndum við svoleiðis aðstæður. Þarna voru nokkrar tegundir af handsápum, sótthreinsandi krem, allt glansandi hreint og dauðhreinsað og ég hefði alveg treyst mér til að snæða nautasteik af klósettsetunni og skola henni niður með klósettvatninu, svo hreint var umhorfs innivið.
önnur skemmtileg klósettferð átti sér stað nokkru síðar, en fyrst að öðru atriði. Hvurslags djöfuls skítapleis er Akranes. Ásdísarættingjar voru búnir að hringja í öll kaffihús á Akranesi og spurja hvort þau gætu tekið á móti 10 manna hóp, þar af 2 smástelpur, en enginn svoleiðis staður er til á Akranesi!! þó gefinn væri fjögurra stunda fyrirvari!
Hótel Glymur í Hvalfirði reddaði málunum og þar fengum við eðal eplakökur og gott kaffi til að fagna skírn litlu Inger(ar?) Elísabetar. Hótel Glymur er snilldarstaður með ævintýralegum innanstokksmunum og rosalegu fallegu útsýni. Þar fór önnur pissuferð dagsins fram og eins og allt annað á þessu hóteli var klósettið afar spennandi og skemmtilegt, með ljóðum á veggjum og syngjandi fiskum og tímaritum við klósettin og bara snilld. 4 stjörnur til Hótel Glyms (engar til Akraness!)