30.4.05

piparsveinn

Í gærkvöldi pipraði ég óvart aðra ristabrauðsneiðina mína eftir að hafa smurt vel af smjöri og sultu á.. mæli ekkert sérstaklega með því!

Samt pínu spes.

28.4.05

kraginn vekur eftirtekt

tónleikarnir búnir já..
Bach var þokkalegur
Mozart var skelfing, algjör hryllingur - langversta sem ég hef gert á tónleikum!
Chopin slapp
hléið var næs
Skriabin vakti lukku
Prokofiev var þokkalegur
Liszt gekk best

Annars vakti uppbrettur kragi á jakkanum mínum eftir hlé víst meiri athygli en sjálft spilið.. það er alltaf e-h hjá mér! :( en þá eretta búið og ég byrjaður að æfa ný verk..

Eftir tónleikana var síðan veisla góð og ljúfar veitingar í boði foreldra (og ástkærra systkina). Fékk ýmsar gjafir sem ég bjóst alls ekki við að fá yfirhöfuð Queer eye bókina (ásamt risa popprokk sögubók) frá nokkrum (snillingum) úr kórnum og síðan fokking alfræðabók um MAT! frá Gunnu frænku og family, næstum 700 bls :o
ég er orðlaus!!

eða næstum


í lagi var lagið hans Bachs
en ljótt var á Mozart að hlýða
ég fór í flækju og ekkert gekk
fingurnir vildu ekki hlýða

já verk fékk af verki Mozarts
verk í hendur og putta
en valsinn hann gaf mér aftur von
verkið (hans Chopins) stutta

í hléi fór helvítis kraginn upp
og heli sá auðvitað ekkert
ég sem var fínustu fötunum í
og fannst ég vera lekkert
:s

en jæja

Scriabin var skrítinn fannst mörgum
en skoraði þó nokkuð hátt
Prokofiev var nokkuð pro
já pakkið var giska sátt

en þá kom snillinn, sjálfur Liszt
þar snilldartakta reyndi að ljá
fólkið virtist furðu ánægt
fingralipurð mína að sjá

en já
í heildina varetta andans auðgun
ef undan er skilin Mozartsnauðgun
og vonandi skyggir ei sagan um kragann
á spilið um kvöldið (ég hefði átt að laga´nn! :()

en nú er ég formlega orðinn leikari - meira að segja píanóleikari!
nei reyndar ekki formlega, verð það ekki fyrr en 27. maí.
en vó..

27.4.05

3.5 klst and counting

vonandi verða bara engir trójuhestar í flyglinum :-s

neinei - bara brosa, þá kemuretta :D :d :) :-D

25.4.05

jæja

Ég hef svo geðveikt gaman af þessum prófum sem allir eru að setja upp um sjálfa sig að ég ákvað að búa til eitt um mig.

þekkirðu mig?

23.4.05

vírusar, spywares og trójuhestar...

my computer is under massive attack so i´m just gonna lay low for a week or so - don´t know when i´ll blog again :'(

21.4.05

sérvitringar bæjarins

-gamla konan í drullugu joggingbuxunum sem borðar upp úr ruslinu
-róninn með starandi augnaráðið sem labbar hratt
-skrítna parið á bekknum fyrir utan bónus (oft með egils kristal +)
-asíska konan með grímuna sem safnar dósum lon og don
-skeggjaði lubbinn í kámugu fötunum og ósamstæðu sokkunum á leið í/úr lhí

Þetta eru einungis nokkrir af fastagestum laugavegsrúntsins sem maður er farinn að kannast við. Allir soldið skrítnir.
Nú er kominn nýr arkari, Bobby heitir hann og er góður í skák.


Ég var að fletta í gegnum vínylplötur í uppáhaldsbúðinni minni þegar inn labbar Fischer. Ég sé hann oft á vappi nálægt þessari búð þannig að mig grunar að við eigum jafnvel sömu uppáhaldsbúð - heli og bobby..

En allavega - það sem mér fannst skrítið að sjá var þegar gamall karl, e-h vel yfir 70 ábyggilega, vindur sér að bobby þar sem hann situr í goody og tekur í höndina á honum.
- Gúdd afternún sör.. sagði hann með ákafa í röddinni og aðdáunarglampa í augum.
- yeah, yeah.. sagði bobby með sínum eðalhreim.
- æ sov jú in ðe tsjampjonsjipp.. sagði gamli með íslenskuhreim dauðans.
- yeah, yeah.. sagði bobby.
- æ stúdd viðþjú
- yeah, yeah...

Þegar þarna var komið við sögu þurfti ég að fara þannig að ég veit ekki hversu lengi þessar samræður stóðu en ég vona að kallinn hafi ekki böggað bobby lengi,- úff ég fékk kjánahroll. En segiði svo að bara unglingsstúlkur séu grúppíur.

Gleðilegt allar

Komdu sæll sumardagurinn fyrsti! Skildi ekki þessa partístemmningu í gærkvöldi, þar til ég komst að því að það er víst sumardagurinn fyrsti í dag. Sumt fer alveg fram hjá manni! en slæmt þegar þetta sumt er sumarið, en þó væri það í lagi ef það væri allt og sumt.

En best að hefja sumarið á ósvífinni bæn til sumarsins - ó að það verði gott við mig..

sæll komdu sumardagur
sumir létu bíða eftir sér!!
megi nú mildandi bragur
myrkrinu bægja frá mér

já klárt það er að kaldur bjór
er kúl um heitan dag
en kaldur bjór um kaldan dag
er "kúl"!!! sem vetrarsnjór

bæn mín eina er ósvífin
enda ég svífinn er sjaldan
ég vil í sumar fá alvöru sumar!!
og svolgra bjórinn kaldan

sæll komdu sumardagur
sumir biðu lengi eftir þér
suma daga í sumar fagur
sólardagur heilsi mér

þetta er bænin mín "bljúga"
í byrjun sumars ég kveð
ég ákvað í upphafi að heilsa
en að endingu núna ég kveð

ps.
(það ágætt er að skálda sljór
á sumardaginn fyrsta
en út af þessu blaðri um bjór
mig byrjað er að þyrsta)

19.4.05

ég fokking anga

gerði smá tilraun í gærkvöldi - yfirleitt þegar ég er að gera lasagna set ég ca. 3-4 hvítlauksrif í dæmið en í gær ákvað ég að margfalda það og kramdi hvern geirann á fætur öðrum út í hakkið - ég veit ekki hver lokatalan var en það flugu vel yfir 10 geirar - enda brunnu bragðlaukar - vonandi að löggan lesi ekki þessa síðu því ég yrði kærður fyrir bragðlauksofbeldi..

ég setti afganginn í frysti og þegar ég opnaði hann í morgun tók á móti mér svaka hvítlaukslykt - út úr frystinum!! þetta er verra/betra en hvítlauksísinn.. hrikalega gott!!

8 days and counting...

miðvikudagur 27.apríl - 2005

Efnisskrá:

J.S.Bach (1685-1750)
Prelúdía & fúga í e moll úr DWK I

W.A.Mozart (1756-1791)
Sónata í C dúr KV 309
-Allegro con spirito
-Andante un poco adagio
-Allegretto grazioso

F.Chopin (1810-1849)
Vals í Ges dúr op. posth. 70 nr. 1

-----hlé-------

A.Scriabin (1872-1915)
Fjórar prelúdíur op. 31
-Andante
-Con stravaganza
-Presto
-Lento

S.Prokofieff (1891-1953)
Fjögur stykki op. 32
-1. Dans - Allegretto. Con eleganza
-2. Menúett - Allegro moderato
-3. Gavotta - Allegro non troppo
-4. Vals - Lento esspressivo

F.Liszt (1811-1886)
-Liebestraum nr. 3
-Ungversk rapsódía nr. 12

16.4.05

Kvöldið er ónýtt..

Hvar er fjarstýringin? HVAR??

romsa

if you feel bad
i feel sad
and if i feel sad
you feel bad
and if you feel bad
i feel sad
and if i feel sad
you feel bad
and if you feel bad
i feel sad
and if i feel sad
you feel bad
and if you feel bad
i feel sad
and if i feel sad
you feel bad
and if you feel bad
i feel sad
and if i feel sad
you feel bad
and if you feel bad
i feel sad
but if..
but if you feel glad..

hmm...
well that´s a whole new romsa

14.4.05

Sakna Holtsins svolítið..

Var að éta nestið mitt í strætóskýli í grafarvogi í dag, þurrt brauð með vondri skinku og slarkfæru salati. Hugsaði þá til Holtsins. Fyrir framan skýlið var grasbali (hálfgert holt) og sólin skein og það var fagurt um að litast svo að ég var bara í goody fíling þrátt fyrir allt.

Nett gola lék um kinnar og ég dundaði mér við brauðið en sá þá mann og hund koma eftir gangstéttinni. Allt í lagi með það, þangað til maðurinn tekur plastpoka upp úr vasanum, samskonar plastpoka og ég notaði undir brauðið. Þá varð mér ljóst erindi hunds og fylgdist síðan lítt spenntur með þegar hann hljóp snuðrandi um balann (holtið), leitandi að hentugum stað til að kukka.

Þegar ósköpin voru gengin yfir og hundur og maður á braut, með pokann fullan, varð hið vafasama bragð salats og brauðs enn vafasamara. Golan frá holtinu vakti skyndilega ekki jafn ferskar og skemmtilegar tilfinningar. Þetta kallar maður að gefa skít í holtið.
Já ég sakna Holtsins.

Sveitalubbar á Holtinu (Sönn saga)

"Á ég þá að koma strax með vínlistann?" spurði þjónninn þegar Helgi sagði að þau væru búin að ákveða að skella sér á afmælismatseðilinn.
"Jájá" sagði Helgi og fékk í hendurnar seðil með örugglega meira en 100 mismunandi víntegundum.

Verandi vita vínvitlaus hefði þetta alveg eins getað verið Vouge en ég þóttist fletta e-h í gegnum þetta með dísi. (bæði álíka gáfuleg í þessum málum)

"Jæja er e-h hægt að aðstoða með valið?" spurði þjónninn skömmu seinna.
"uuuu" "ja"..
"Hvernig víni eruð þið svona helst hrifin af" spurði hann mig.
"uuu" "ja" .. berja.. bragð..
"Ekki mjög sterkt og súrt?" "á bragðið að koma með karakter vínsins meira?" (o.sfrv.)
"uuu" "ja" .. já! jájá, einmitt.
"já, þá held ég viti hvert við séum að fara."
Endaði svo á að fá 7000 króna búrgúndarrauðvín frá 1994 og 2600 kr 400 ml flösku af hvítvíni.
Rauðvínið var fínt en hvítvínið var algjör snilld!!

Það fyrsta sem var borið á borð var síðan graflaxsnitta, 2 sniglar í skel og lauksúpa í litlum bolla.
Graflax er alltaf góður, sniglarnir voru furðu góðir en lauksúpan var fokking snilld. Lauksúpan vann þessa lotu, þó dís hefði titlað snigla sem snilla.

Þá var komið að humri í skel með stórkostlegri sósu, hann fór langt með það að hrifsa fyrsta sætið af lauksúpunni góðu.

Þá fengum við aukarétt út á réttu samböndin!! ætiþistlafroða með graslauk í boði Simma var ólíkt öllu sem ég hef bragðað en alveg magnaður skratti.

Tónar hafsins blanda af smokkfisk, hörpuskel, skötusel, risarækju o.sfrv. var mjög gott, þar kláraðist hvítvínsflaskan svo nú var komið að rauðvíninu sem var drukkið með restinni af þessum rétt.

Kampanvískrapís var sérlega ánægjulegur lystauki en svolítið naumt skammtaður (ein msk).

En þá kom stórabomba: Lambahryggvöðvi “tranche” og turnbauti með fondandt kartöflu, rótargrænmeti, villisveppasósu og Bearnaise. Engin orð eru til að lýsa gæðum þessa réttar svo góður var hann!!!! sósurnar voru beeb! og kjötið var beeb! og meðlætið var beeb! Ekki spillti rauðvínið!!

Eftirréttirnir voru ágætir en kannski það sísta á dagskránni. Betra var hins vegar konfektið sem fylgdi kaffinu og koníakinu í betri stofunni!! Snilldar koníak og frábært kaffi og konfekt.

22500 kall beibí - worth every penny!

11.4.05

wtf

Var rétt í þessu að heyra sprengingu inni hjá mér. Ég nottla wtf... skildi ekkert. Leit síðan inn í ofn og mundi þá eftir banana sem ég setti inn í ofninn fyrir guð veit hve mörgum mínútum. Hann er semsagt sprunginn í öreindir núna og ofninn er fokking mess! Sem betur fer keypti ég ofnhreinsi í fyrradag og veit að hans bíður nú ærið verkefni.

En þar fór fyrir lítið bakaði bananinn minn sem ég ætlaði að hafa með 70% súkkulaði og afgang af vanilluís sem ég á... hnuss!

Gövuð!!

Halelúja Hótel Holt -Halelúja
Praise the lord!!

HALELÚJA!!!!

Heyri ég AMEN!???

9.4.05

Hótel hollt - here we come!

Eftir ca. 20 klst verð ég staddur á Holtinu, þá þarf ég bara að vita hvernig á maður að kaupa rauðvín eins og mönnum sæmir. mmmm...

5.900 kr. á mann.
Graflax (óbreyttur á matseðli síðan ’66) með ristuðu brauði og Viking sósuFrönsk lauksúpa (’69-’85) með hvítlauks-Pernod smjöri.
Sniglar í skel (’69-’95) Glóðarsteikur humar í skel (síðan ’66 af og til á matseðli) með ristuðu brauði og smjöri
Tónar hafsins (einn vinsælasti aðalréttur Holtsins á árunum ’66-’96) Valdir sjávarréttir með austurlensku kryddi, grænmeti og hrísgrjónum, steikt í koníak.
Kampavínskrapís.
Holtsvagninn (’70-’80. Fyrirskurðarvagn gefin Þorvaldi Guðmundssyni sem þakklætisvottur fyrir starf hans að kynningu lambakjöts sem veislumatbæði hérlendis sem erlendis) Lambahryggvöðvi “tranche” og turnbauti með fondandt kartöflu, rótargrænmeti, villisveppasósu og Bearnaise.
Marsipan ísrúlla (’86-’93) með volgri súkkulaðisósu Crêpes suzette (síðan ‘66 af og til á matseðli) Holts ís með Cherry Heering.

Helgi H og dís með Á
Holtið bráðum fara á.
Vilja munu vöðva af á
með villisveppasósu á.

Hótel Holt! brátt opna skolt
Helgi og Dísa Manna.
Svöng og sæt og til í hollt
og sætt á milli tanna.

Oft er í holti heyrandi nær
hátturinn segir gamli.
Eins er á Holtinu æðisleg ær
og sjávarréttir á svamli.

Oft er á Holti hressandi blær
höfugur ilmur og graflaxinn kær.
Sniglar í skel já og humar með klær.
Snilldar naut og margnefnd ær.

Kampavínskrapís hljómar VÁ!
Crap er varla ísinn sá
já málsverð mikinn munum fá.
(sem mun að vísu kosta smá.)

But who´s gonna care? - ekki mér.. érsoríkur

8.4.05

Tilraun aldarinnar

Ég var að sjá í þættinum "allt í drasli" ansi sniðuga hugmynd. -""Taka-til-dagbók"". Ég er enginn megasóði en mig langaði geðveikt í svona dagbók þannig að ég bjó mér bara til. Nú ætla ég að sjá hvað ég endist í marga daga við að fylgja þessu prógrammi. Ef mér tekst alltaf að fylgja þessu verður íbúðin alltaf shiny. Flest er nóg að gera 2-3 sinnum í mánuði þannig að stundataflan gerir ráð fyrir því. (/=eða)

verk sem þarf að gera:

1. Bað- spegill vaskur hillur
2. Bað- skúra og taka klós og sturt
3. Þurrka af í herbergi og taka til
4. Sópa allt
5. Þurrka af í stofu og taka til
6. Eldavél/ísskápur/vifta
7. Taka til í geymslu/fataskápur
8. Sópa og skúra forst & gang
9. Sópa og skúra herb & stof
10. Ruslaskápur
11. Eldhússkúffur
12. Eldhússkápur að eigin vali
13. Stofugluggi
14. Herbergisgluggi



mán 4&1/14
þri 10/11
mið 4&13/7
fim 6/12/9
fös 2/3
lau 4&7/8
sun 5

6.4.05

aprílhretið hrellir mig

ó mér er svo kalt, ég fór í tveimur peysum í skólann og snjóbuxum en allt kom fyrir ekki... ég er að crebera úr kulda!! það ýlfrar í glugganum hjá mér og afleiðingin er hrollur dauðans.

Vonandi vínandi fyllir mig brátt
því vindurinn hvínandi gnauðar svo hátt.
Æ allt er svo hrátt, já og allt er svo grátt!
Ekki er veðrinu ógnandi treystandi.

Vindurinn hvínandi hefur svo hátt.
Hryllileg lætin þau draga úr mér mátt.
Vonandi sýnandi geislana skínandi
sólin mér hlýnandi heilsar nú brátt.

ja

nú er allavega auðveldara að þurrka á sér hárið eftir sturtu.. það var orðið þreytandi.

en úff...

4.4.05

Samofin örlög...

Töffarinn og nördið (sönn smásaga um strætómissi)
""__
Sit í sófanum heima og vafra á netinu. Fylgist með ofnklukkunni og sé á grænum stöfunum að einungis 5 mínútur eru í að strætó fari.. úff best að drífa sig, ég er tvær mínútur að labba að Hlemmi. En bara eina mínútu í viðbót á netinu - og eina til... Æ! Tvær mínútur í að hann fari!!
Gríp dót, bursta tennurnar á 8 sekúndum og klæði mig síðan í úlpuna á meðan ég hleyp niður að Hlemmi. Á þessari stundu er ómögulegt að segja hvort ég nái.. það er sekúnduspursmál.

Á leiðinni sé ég töffara. Ekki í frásögur færandi nema að þessi töffari virðist vera að flýta sér, rétt eins og ég. Gæjalegur og sportlegur jakkinn flaksast ankanlega því hann labbar svo hratt og kúl hárgreiðslan er ekki í stíl við stressað augnaráð og örvæntingarfullt látbragð hans.

Ég finn til ákveðinnar samkenndar þegar ég hleyp fram úr honum og hugsa með mér hvort hann reyni líka að ná strætó. Tengdi leið 15 nördið og töffarann saman þessar nokkru sekúndur sem eftir voru að Hlemmi?! Ég hleyp eins og fætur toga en hann má náttúrulega ekki, stöðu sinnar vegna, gera meira en að ganga hratt.

Allavega.. þegar ég kem að Hlemmi sé ég hvar leið 15 er að renna úr sjónmáli og 8 sekúndurnar sem fóru í að bursta tennurnar kostuðu mig 20 mín. Hrikalega gremjulegt er að missa af strætó og ákveðið ferli sem maður gengur í gegnum á svoleiðis stundum. Það byrjar á því að maður glápir á eftir vagninum með miklum reiði/gremjusvip þar til hann sést ekki lengur.

Ég setti upp svipinn og byrjaði að glápa og sé þá út undan mér töffarann. Við litum snöggt hvor í annars augu og skildum báðir að örlögin verða ekki umflúin, sama hver staða manns er í þjóðfélaginu. Örlög okkar voru samofin. Hann missti af strætó því hann var of mikill gæi til að hlaupa en ég missti af honum því ég fer alltaf út úr húsi á síðustu stundu.
Hver hefur sinn háttinn á í heimsku hversdagsins.

Oft er í Holti...

Er Holtið ekki málið?

5.900 kr. á mann.

Graflax (óbreyttur á matseðli síðan ’66) með ristuðu brauði og Viking sósu
Frönsk lauksúpa (’69-’85) með hvítlauks-Pernod smjöri.

Sniglar í skel (’69-’95) Glóðarsteikur humar í skel (síðan ’66 af og til á matseðli) með ristuðu brauði og smjöri
Tónar hafsins (einn vinsælasti aðalréttur Holtsins á árunum ’66-’96) Valdir sjávarréttir með austurlensku kryddi, grænmeti og hrísgrjónum, steikt í koníak.

Kampavínskrapís.

Holtsvagninn (’70-’80. Fyrirskurðarvagn gefin Þorvaldi Guðmundssyni sem þakklætisvottur fyrir starf hans að kynningu lambakjöts sem veislumatbæði hérlendis sem erlendis) Lambahryggvöðvi “tranche” og turnbauti með fondandt kartöflu, rótargrænmeti, villisveppasósu og Bearnaise.

Marsipan ísrúlla (’86-’93) með volgri súkkulaðisósu Crêpes suzette (síðan ‘66 af og til á matseðli) Holts ís með Cherry Heering.

Jú ég held það bara.. Þá er bara spurningin. Er maður að gera eitthvað af sér ef maður býður dömu á Holtið? Viðhalda áralangri kúgun karlmanna á kvenfólki? Karlrembulegt? Maður þarf alltaf að spyrja sig að þessu! Halda sér á tánum...

1.4.05

Annasamur dagur í dag..

Bæði krónan og bónus eiga miklar umframbirgðir af páskaeggjum og gefa egg með hverjum líter af mjólk í dag. Óvænt ánægja þegar ég var að versla áðan. Allir að drífa sig út í búð.

Og svo er það nottla ódýri DVD- og geisladiskamarkaðurinn í Skífunni. Allir þangað líka. Góðar myndir allt niður í 149 kr og cd á 99 kr. Snilld! Þetta verður busy dagur..

Jæja, og svo er ég loksins búinn í klippingu!! Myndir í næsta útibúi Íslandsbanka. Þeir styrktu mig til verksins. Allir í bankann og skoða!!