31.12.04

the beauty of the blog III

Síðasti sólarhringur ársins að renna upp og súkkulaðikakan fyrir annað kvöld kom út úr ofninum áðan, mmm hvað það er gaman að baka. Ég held að kakan hafi hreinlega heppnast ágætlega hjá mér, ég er spenntur að smakka! Það verður góður matur annað kvöld.

Ég ætla pottþétt að fá mér þráðlaust net eftir áramót, það er algjör snilld að geta legið upp í rúmi og vafrað og bloggað og pælt!
Tæknin nú til dags er makalaus og bloggið er snilld þegar maður er makalaus. Þar sem ég ligg hér makalaus í fleti mínu þegar sólin er hnigin til viðar er gott að geta nýtt sér hina þráðlausu nettækni fyrir andlega útrás. Ég stefni að því að gera góðan slatta af því á komandi ári.
Dyggir lesendur bloggs míns í gegnum dagana muna eflaust eftir að blogginu hefur verið líkt við gæludýr og sálræna skák við páfann. Á sama hátt má einnig líta á það sem andlegan viðrekstur - Það má líta á það að blogga sem að freta á netið - í andlegum skilningi. og þeir sem lesa bloggið eru þá í raun að hlusta á sál mína prumpa!


FRETAÐ Á NETINU

Ligg í leti í mínu fleti.
Ligg en vafra á interneti.
Fæ útrás með innrás á heimili þitt.
Sjá í vetur, sálartetur
sífellt mun um sólarsetur
blogga, -það er mitt sálarshit.

Skrítið getur stafrænt letur
starfað sem minn andans fretur.
Hratt nú af spenningi sest upp við dogg.
Leggst aftur í fletið, læði á netið
litlum hvelli, heyrðu fretið!
Svona er the beauty of the blog.

(Best er að lesa vísuna upphátt með sterkum norðlenskum hreim!)

30.12.04

Heit áramótaheit

Á hverjum áramótum hugsa ég mér að ég ætli að gera betur á næsta ári heldur en því síðasta. Ég hef samt aldrei strengt formleg áramótaheit. Nú ætla ég að gera risalista með sjóðandi heitum áramótaheitum og reyna að standa við það allt saman. Næsta ár er það fullkomnunin sem gildir!

áramótaheitalisti:

Kaupa flík, helst bæði peysu og buxur (Hef aldrei á ævinni keypt mér föt af sjálfsdáðum og því er þetta stórskref, smáskref fyrir mannkynið en stórt fyrir mig)

Hætta að vera latur (ég veit ekki hvort ég mun nenna að standa við þetta heit)

gefa meira, þiggja meira

Vera duglegri við að raka mig (það verður erfitt að nenna að standa við þetta heit)

Ganga í samstæðum sokkum (fólk virðist almennt ekki hrifið af ósamstæðum sokkum og því virðist nauðsynlegt ef maður ætlar að vera gjaldgengur meðal þess að vanda val úr sokkaskúffu)

Vakna fyrr á morgnana og fara fyrr að sofa (ég veit ekki hvort ég mun nenna að standa við þetta heit)

Heilla kvenfólk upp úr skónum með ýmsum óvæntum aðgerðum (Það stoppar yfirleitt í forstofunni)

Halda áfram að reyna að rembast við að verða fullkominn kokkur og bakari

Baka mikið, elda flott

Hætta að vera myrkfælinn (hvernig sem maður fer að því)

Vera þægur og góður

blogga

tala lítið og gáfulega
don´t worry be happy!

Hætta að vera tapsár (Keppast um að ná því og þá get ég ekki tapað, - því ég er svo tapsár, - en þó mér takist síðan ekki að hætta að vera tapsár þá ætla ég ekkert að vera tapsár yfir því, eða reyna allavega að verða það ekki, það verður samt erfitt því ég er svo tapsár)

Fá sixpack á magann (hvernig sem maður fer að því)

Komast í betra form

Brugga rauðvín og bjóða upp á það á útskriftartónleikunum í vor

Spila vel á útskriftartónleikunum í vor (helst að framkalla gæsahúð, jafnvel tár á hvarmi)

Verða meira normal (hvernig sem maður fer að því)

29.12.04

dónamessuvínsjólavísa (hókí pókí) - snúin aftur

Vegna fjölda áskoranna (ok. bara einnar) hef ég ákveðið að birta aftur vísuna sem birtist á þorláksmessukvöldi en var tekin út aftur á aðfangadagsmorgunn. Hún var skrifuð sem mótvægi við Þorláksmessujólavísuna (yin og yan dæmi eitthvað-one good one naughty). Nú eru hin helgu jól liðin og hin syndugu áramót fram undan.. Ritskoðun er ekki af hinu góða but those who are easily offended should not read any further..

Sungið við Hókípókí (wooooh! gerum hókí pókí) poke = pota

við setjum stóra lókinn inn
við tökum stóra lókinn út
inn út inn út inn út inn út inn út inn út inn út inn út inn út og svo framvegis
við gerum poke með lóki
og snúum honum í hring
og þetta er allt og sumt

ohh! gott er að fá lók í
já gerum poke með lóki
því gott er að fá lók í
já lók inn í analinn.

28.12.04

sálmurinn um ölið

Í tilefni að komu áramótanna er rétt að horfa til himins og rifja upp sálminn sem Jesús söng í teitinu forðum, þegar hann breytti vatni í vín.

já það æði að teyga ölið
einkavin í hverri þraut
tekur burtu frá þér bölið
bægir þér af rangri braut
hvílíkt slys er því að sleppa
að sötra á öli hverja stund
fingur skalt því krús um kreppa
og karl minn létta þína lund.

Já maður verður að fá sér eitthvað gott á gamlaárskvall.

eins og við munum svöruðu lærisveinarnir þá að bragði:

ó þá náð að eiga Krissa
einkavin sem dýrkar grín
allir Krist hér vilja kyssa
karl sem breytir vatni í vín
ó þá heill að halla mega
hálsi´ á flösku að sinni vör
öl er yndi víst að teyga
öll það lífsins veitir svör.

Það verður gaman a gamalarskvall.

löngu seinna breytti hr. Jochumsson því í sálminn sem við þekkjum best:

ó þá náð að eiga Jesú
einkavin í hverri þraut
ó þá heill að halla mega
höfði sínu í drottins skaut
ó það slys því hnossi að hafna
hvílíkt fár á þinni braut
ef þú blindur vilt ei varpa
von og sorg í drottins skaut

27.12.04

að leggja mat á mat

Þennan kvöldverðarpakka er hægt að fá á Hótel Holti um þessar mundir. mmmm! hljómar eins og fallegt ljóð:

Lystauki
Jerúsalem ætiþistlasúpa, kálfabris með trufflukartöflu mousseline
og skelfiskssalat boulliabaisse

Forréttur
Steiktur barri og masago í brauðskel
á mangó chutney með sauternes froðu

Milliréttur
Steikt lynghænubringu salmis og andarlifrarterrína með roðarunnaeplum

Aðalréttur
Hreindýrahryggvöðvi með geitaostakartöflu, San Daniel,
rótargrænmetisterrínu portvínssoðinni peru og sósu poivrade

Ábætir
Mandarínusorbet, mandarínuterrína, mandarínukaka savarin,
mandarínusnafs og mandarínu “bigni”

Verð 9.000,- krónur

níu þúsundkall, ætli þetta verði nokkuð á næstunni.. Gefur manni samt innblástur fyrir gamlaárskvöld. Það verður eldað eitthvað rosalegt þá. Þetta mandarínuþema í ábætinum rukkar munnvatn fyrir mandarínuaðdáanda eins og mig.

fjórar staðreyndir

valdamesti maður heims í stjórnmálum er algjör sauður
liturinn á rauðum jólum er ekki rauður
risahús og peningar eru ekki sannur auður
valdamesti maður heims í trúmálum virðist vera dauður

fjórar staðreyndir sem ég vaknaði með á vörunum áðan

Þegar hið slæma er það slæmt...

...að það verður ekki verra,
þá er það oft búið að fara hringinn og orðið á furðulegan hátt að snilld.
Bróðir minn Mummi fékk í jólagjöf jóladisk með William Hung, gaur sem "sló í gegn" í American Idol með laginu She bangs. Diskurinn heitir Hung for the holidays og er svo lélegur að það er hreinlega gaman að hlusta á hann.
Drottning hins lélega á Íslandi hlýtur að teljast Leoncie sem er svo einlæg og krúttleg í tónlistargjörningi sínum að það er ekki hægt annað en að heillast af ósómanum og flokka hann sem tæra snilld.

Í kvikmyndageiranum eru svona persónur víða og eru góð dæmi margar myndir með Jean Claude Van Damme og Steven Seagal. Myndir með þeim sem eiga að vera spennandi og svalar eru oft svo skemmtilega hallærislegar að þær verða að bestu gamanmyndum. Jafnvel er hægt að setjast niður með hláturmildri persónu og horfa á viðbjóð eins og The Bachelorette á skjá einum, og túlka það sem fyrir augu ber sem snilldarskemmtiefni. John Travolta á líka góða spretti í þessum málum og alltaf spennandi að sjá mynd með honum (eins og hann var nú svalur í gamla daga greyið!)

Í alvörulífinu finnst mér páfinn bera höfuð og herðar yfir aðra hvað varðar fáránleikasnilld. Hvað er þetta með hann? ég sá hann jólamessa núna í gær og það er í fyrsta lagi ekki hægt að sjá hvort hann er lífs eða liðinn og í öðru lagi skilst ekki eitt einasta orð sem hann, segir samt hlusta milljónir agndofa á hann, bambúkka eitthvað út í loftið. incredible!

En best að enda á því að hrósa nágrannanum á móti fyrir risastóran og flottan snjókall sem er kominn upp fyrir framan hjá þeim, nauðsynlegt fyrir hverja götu að hafa einn Snæfinn.

26.12.04

jóladagur - margt í gangi

Það byrjaði ömurlega þessi jóladagur! Ég og Siggi bróðir fórum og sóttum afa í hádegismatinn. Við þurftum að moka risastóran skafl í götunni bara til að eiga möguleika á að komast út úr henni, en það var allt í lagi. Það ömurlega var að það hljóp hundur fyrir bílinn á leiðinni til afa og bíllinn rakst utan í hausinn á honum. Ég var búinn að hægja dálítið á mér en þetta var samt talsvert högg. Þetta var afskaplega fallegur hundur, meðalstór, hvítur og svartur. Eigendurnir þustu með hann heim til sín og ég veit ekkert hvernig fór en ég vona bara að hundgreyið jafni sig. Þetta var með ömurlegri tilfinningum sem ég hef fundið þegar ég heyrði dynkinn í bílnum er hundurinn rakst í hann. Ég hef nú aldrei lent í neinu óhappi keyrandi áður.

Ég hugsaði um þennan hund í allan dag og hann skemmdi dálítið stemmninguna fyrir mér. En í kvöld (og nótt)vorum við systkinin að spila og dreypa á rauðvíni, það vantar aldrei örlætið á rauðvínið hjá Mumma bróður og Hafdísi konu hans! Einnig var Whiskey í boði og það var helvíti gott, fékk mér samt bara eitt glas af því, hélt mér annars bara við rauðvínið. Spiluðum nýja popppunktsspilið og það var bara ágætt spil.

Ég vona að það gerist ekkert svona leiðinlegt eins og með hundinn á morgun og ég verði alveg búinn að losna þá við þetta netta samviskubit sem ég ber nú.

25.12.04

Jólahaldið

Hvað heldur Helgi um helgihaldið?

jólin eru snilld. Mamma kokkandi, ilmurinn lokkandi, fjölskyldan rokkandi. Maturinn (hamborgarhryggur með öllu tilheyrandi) var frábær, ég og elsti bróðir minn sáum um sósuna, hún var fín.
Ég sá um eftirréttinn, gerði vanilluís og framreiddi með honum banana, jarðarber og súkkulaðisósu. Súkkulaðisósan var aðeins of sæt., en ekki er sætt óætt, heildin slapp.
Eitthvað virðist ég verða skynsamari með árunum því ég borðaði ekki yfir mig þessi jól. Ég borðaði mig saddan og lét það nægja en yfirleitt hef ég borðað það mikið að ég eigi erfitt með gang. Ég er afar ánægður með að hafa sloppið við núna!

Húmor kvöldsins var sokkapar, sem fylgdi gjöf frá bróður mínum og mágkonu, með ósamstæðum sokkum. Eitthvað verið að skjóta á það að ég bregð mér stundum í mislita sokka. Þau höfðu fyrir því að kaupa tvenn pör (eitt svart og eitt ljósgrátt), taka einn sokk úr hvoru pari og festa þá saman á viðeigandi hátt, þannig að ég hélt að þau hefðu keypt parið svona! Svo fékk ég líka peysu, matreiðslubók, hitakaffikönnu, nammi, SEINFELD spólu og margt fleira. Seinna um kvöldið komu síðan fleiri í heimsókn og systurbörn mín komu m.a. með TWISTer spilið sem þau fengu í jólagjöf, þannig að ég gat loksins prófað þetta víðfræga spil. Úff þetta er illa partíspilið maður! rosalega skemmtilegt!

Og nú er síðan í hádeginu, að byrja önnur átveisla, hangiketið, held að það komi 21 í mat!! Best að fara að hjálpa til.

ps: Gubbi minn! Hvað er málið með veðrið? -10°C, 10 vindstig, snjókoma og skafrenningur í allan gærdag, og að mér sýnist ennþá! Er ekki málið bara aðeins að slaka?

24.12.04

hvítlauksísinn og guð III - the end

Að fara í jólaglögg í 16 stiga frosti og snjó á þorláksmessu, það er gaman, það er jólalegt. Nú er glöggin búin og 24. des er nýbyrjaður, rúmlega tveggja klst gamall. Ég þarf að drífa mig að fara að sofa en best að lýsa lokahnykk hvítlauksíssævintýrisins fyrst.

Hvítlauksísinn verður líklegast ekki prófaður aftur. Ég var í jólaglögg í kvöld, spennan út af hvítlauksísnum lá í loftinu meðan dreypt var á glögginni góðu. Jólaglögg er furðuleg á bragðið en ótrúlega skemmtileg. Ég var að vona að það sama gilti um hvítlauksísinn. Átta manneskjur voru samankomnar og fengu allar eina kúlu af ísnum góða þegar glöggin var búin. Svona leit tölfræðin út:

1 gat ekki hugsað sér að smakka þegar lyktin barst vitum.
2 fengu sér einn bita og fussuðu og sveiuðu og vildu ei meir.
1 gat með herkjum klárað ísinn en var hálfbumbult á eftir.
4 kláruðu ísinn vandræðalaust en voru mishrifnir af eftirbragðinu. Ég og Mummi bróðir vorum allavega ánægðir með hið ríka hvítlaukseftirbragð.

Þetta var vel tilraunarinnar virði, samt einum of furðulegt fyrir minn smekk. Guð virðist að mínum dómi ekki hafa gert ráð fyrir að þessi snilldarhráefni væru sett í eina hít og því býst ég ekki við að prófa þetta aftur. Ég anga enn af hvítlauk, það er ekki jólalegt, en það er gaman!

Þorláksmessujólavísa

jólin núna byrja brátt
birtu og yl þau veita
allir munu hlæja hátt
og hamingjunnar leita
ekki er erfitt jólum á
yndi lífsins í að ná
og fylla magann feita

oft þó lífið ljótt sé grátt
og leiðinleg sé streita
á jólum sækir allt að sátt
þá sofnar lífsins þreyta
hýr þá öll á brún og brá
börnin gjafir sínar fá
og böli í yndi breyta

dónamessuvínsjólavísa (hókí pókí)

RITSKOÐAÐ!!

vegna helgi jólanna hefur þessi vísa verið fjarlægð!

23.12.04

hvítlauksísinn og guð II

Það virðist vera fastbundið í eðli Íslendinga að ögra Guðsgjöfum á þorláksmessu. Sálræn steggjapartí!
guð gaf okkur bragðlauka til að vinsa góðan mat frá vondum en á þollák háma Íslendingar í sig myglaða skötu. Ég get sjálfur ekki ímyndað mér einhvernveginn að fá mér skötubita en ég mun pirra bragðlaukana á annan hátt í dag, með því að fá mér hinn margumtalaða hvítlauksís!

ps.
Elsku Dominos! Viljið þið hætta að auglýsa (ykkar ágætu pizzur) með færeyska gaurnum, þetta eru ömurlegar og ófyndnar auglýsingar og ég mun ekki fá mér dominos á meðan að þetta færeyska þema er við lýði. Please make it stop!

22.12.04

ég vildi ég væri klár

Af hverju þarf ég alltaf að vera eins og auli í kringum fólk, gera eitthvað vitlaust. Ég fór í þrjár heimsóknir í gær og tókst að heimskast í þeim öllum.
Fyrst fór ég í sveitina að hjálpa ömmu við ýmislegt. hún bað mig m.a. að vökva blómin en bara alls ekki sulla vatni á ægilega fínan silkijóladúk, einhvern sem hún tekur alltaf fram á jólum og heldur mikið upp á. Ég sullaði náttúrulega einhverjum dl á dúkinn en það reddaðist.
Svo heilsaði ég upp á gamla píanókennarann minn. Þar sá eg hljóðfæri í stofunni, horfði á það og spurði hvort einhver væri farinn að læra á gítar í fjölskyldunni. Hann sagði bara að dóttir sín væri að læra á selló og þegar ég leit aftur sá ég að þetta var vissulega selló en ekki gítar sem eru dáldið ólík hljóðfæri. Ég fékk slæman kjánahroll út af sjálfum mér þá. (sérlega slæmt þegar maður er sjálfur að læra á hljóðfæri að þekkja ekki gítar frá selló)
Svo fór ég í mat til bróður míns og þar var einnig vinur hans. Þegar ég fór heim um kvöldið fór ég náttúrulega í úlpuna mína en greip líka yfirhöfn vinarins sem ég hélt að væri mín (flísjakki sem er soldið líkur jakka sem ég á.. en samt ekkert mjög) og hélt á henni heim. Ég velti því fyrir mér á leiðinni heim af hverju ég hefði verið bæði í úlpu og flísjakka en svo hringdi bróðir minn seinna um kvöldið þegar vinur hans ætlaði heim, vitandi strax hver sökudólgurinn var þegar flísið fannst ekki.

Ég var edrú í allan gærdag.

hvítlauksísinn og guð

Það virðist næsta augljóst að hvítlaukur og ís er eitthvað sem guð gerði ekki ráð fyrir í plönum sínum. Það er eitthvað óþægt (og óheilagt) við það að opna ísboxið eins og ég gerði áðan, sjá þennan dýrindis ís en finna síðan þessa svaka hvítlaukslykt taka á móti manni. Eittthvað naughty! Þetta er eins og að blóta í kirkju, míga í vaskinn, horfa á Omega stöðina, lesa klámblöð eða eitthvað slíkt.. eitthvað sem er hægt að gera en óskráð lög segja þér að sé ekki alveg sniðugt. En djöfull hlakka ég til að smakka nokkrar skeiðar af honum og vita hvernig áhrifin verða! úúúff..

21.12.04

Hvítlauksísinn!!

jæja þá er maður búinn að brjóta allar brýr að baki sér.
Blinda stefnumótið við hvítlaukinn er búið.

ég hef smakkað hvítlauk í ýmsu formi, pantaði mér m.a. hvítlaukssúpu þegar ég var á veitingastað í Vín í vor. En ekkert gat undirbúið mann fyrir að smakka hvítlauksís. Rosalega sterkt hvítlauksbragð þegar hvítlaukurinn er svona kaldur, ísinn er ekki alveg frystur ennþá en ég var að smakka og váaáááaa. Þetta er rosalegt. Maður angar allur af hvítlauk eftir einn bita. Sykurinn og hvítlaukurinn eru alveg að rokka saman.
Ef maður er nógu mikill psycho þá finnst manni þetta gott. Þeir sem telja sig nokkuð heila á geði skulu bara gleyma þessu!

Hér á vel við lagið hans Hallgríms úr heilsubælinu, ég man ekki alveg hvernig textinn er..


Hvítlaukurinn, það ættu allir að eta hann
hún eykst manni um helming getan
og sætur ilmurinn, sest í nefgöngin, haaoo.

(Sparaðu hvítlaukinn Hallgrímur minn.
Hann drepur mann út úr þér óþefurinn.
Ef andarðu á einhvern sem stendur þér hjá.
Hann engist af kvölum og fellur í dá.)

21. desember

21. des. í dag!
21. des. er merkilegur dagur fyrir fjölskylduna. Í dag eiga foreldrar mínir 30 ára brúðkaupsafmæli og í dag eru líka 17 ár síðan að ég og vinur minn Anton hlupum út úr alelda húsi fjölskyldunnar. Það var talið líklegast að það hefði kviknað í út frá seríunum á jólatrénu. Það er skrítin tilfinning þegar maður er 7 ára að sjá húsið sitt brenna en ég man að ég sá mest eftir því hversu margir pakkar voru komnir undir jólatréð. Pakkar sem ég hugsaði með mér að ég sæi nú aldrei aftur.

En ég var í sveitinni áðan að skreyta jólatréð með ömmu gömlu. Fékk smákökur og nýja kúamjólk mmm... eitthvað annað heldur en gerilsneydda sullið sem þeir selja í búðum. Þeir sem hafa ekki smakkað slíkt-verða!

the beauty of the blog II

Kukkað á netinu!

Að blogga er yndislegt, dásamlegt!
Að setjast niður í ró og næði og koma einhverju frá þér, einhverju íþyngjandi,létta á þér. Stundum kemur það auðveldlega, en stundum er það erfið fæðing... já það má örugglega oft líta á bloggið sem sálræna skák við páfann.

Sálræn netskita!

kötlu vanilludropar

Var að búa til vanilluís fyrir aðfangadagskvöld áðan. Úff hann verður góður!
Er ég ætlaði að hella vanilludropum í íshræruna brá mér heldur betur í brún er ég sá að Katla er búin að skipta um útlit á glösunum! Gömlu glösin eru búin að fylgja manni frá barnæsku og því var þetta töluvert sjokk, maður má nú ekki við miklu raski svona rétt fyrir jólin. Heldur léttist á mér brúnin er ég sá ástæðuna fyrir breytingunni, en á glasinu stendur núna smáu letri: “Hluti af söluandvirði vörunnar gengur til Sunnusjóðsins.” Ég veit ekkert hvað sunnusjóður er en ef að það er gott málefni þá fagna ég bara þessari breytingu.
(ósköp mun ég samt sakna gömlu glasanna)

20.12.04

stórskólakór sem elskar bjór

Ég hef verið í kór núna 5 ár í röð -1 og það er orðið órjúfanlegur hluti af lífi mínu að syngja. En hvaðan í fjáranum kemur það inn í eðli mannsins að finnast gaman að syngja? Pabbi hefur aldrei, mér vitandi, sungið á ævinni en það er undantekningin, flestir hafa gaman af því. En gleðina á bak við söng ætti ég mjög erfitt með að útskýra.

Kórinn sem ég er í núna (Háskólakórinn) er ótrúlega skemmtilegur og maður hefur það á tilfinningunni að eitt af inntökuskilyrðum í kórinn sé að vera snillingur. Það er allavega hver einasta manneskja í kórnum pottþétt! Við munum syngja óvenjulegt en mjög skemmtilegt verk 12. febrúar nk., afríska messu eftir David Fanshaw (African Sanctus) og hver sem mætir á þá tónleika mun ekki vera svikinn!!
Eins og Akureyri er nú jólaleg og skemmtileg þá er eini gallinn við að vera kominn svona snemma hingað í jólafrí að missa af litlu jólum kórsins á morgun! Það verður án efa djúsað og djammað mikið eftir langt ölfrí út af prófunum.. Þó ég trúi nú í rauninni ekki á neitt yfirnáttúrulegt þá gerist alltaf eitthvað yfirnáttúrulegt og kyngimagnað í þessum kórpartíum..

hann verður kátur skólakórinn
er kemst hann í ölið að nýju.
ég fastlega býst við að jólabjórinn
búinn verði um tíu.
þá galdrakór mun galdra bjór
og gleðin hefjast að nýju.
konur og menn munu djamma enn
morguninn eftir til níu.

En ég missi víst af þessu. ohh!!

Matur - hvítlauksís

Nú á að prófa soldið væld, soldið crazy. Ég er mikill hvítlauksaðdáandi og finnst sjaldan sem hvítlauksbragð á ekki við í mat. En þegar ég frétti af þessari uppskrift á bloggsíðu gamla íslenskukennarans míns verð ég að viðurkenna að ég fékk soldinn kökk. Á hvítlaukur við með ís?? það er náttúrulega bara ein leið til að komast að því og það er að prófa. Ég er mjög spenntur en kvíðinn um leið. þetta er svolítið eins og að fara á blint stefnumót, þú fílar stelpur en stundum eru þær ekki alveg að gera sig... spurning hvernig hvítlaukurinn er að gera sig hér...

Ég mun flytja nánari fréttir af því hvernig til tókst þegar búið er að prófa... ú je


Hvítlauksís

2 blöð af matarlími
¼ bolli af köldu vatni
2 bollar af mjólk
1 bolli af sykri
örlítið salt
2 msk. af sítrónusafa
2 hvítlauksrif, smátt söxuð
2 bollar af rjóma

http://www.ma.is/kenn/svp/matur/eftirrettir/hvitlis.htm


jólagírinn

Sumt er betur til þess fallið en annað að veita manni jólaskap, hér er listi minn yfir topp 10 þessa stundina.

10. Skrámur að "syngja" 12 dagar jóla
9. Ómar Ragnarson með barnakór að syngja ýmis lög, sérstaklega: Sveinki viltu nú doka, sýndu okkur í poka æ þú mátt ekki loka honum dadada. Allir krakkarnir hlakka til að taka upp pakka, taka um háls þeim og þakka dadadda..(man ekki alveg textann)
8. Sniffa negul
7. Piparkökur(og aðrar smákökur) með nýmjólk
6. Sankta lucia
5. Spila á píanó og syngja jólalög með litla frændfólkinu (mestu hittararnir eru "í skóginum stóð kofi einn" og "jólasveinar ganga um gólf")
4. Malt&appelsín
3. Mandarínur
2. Snjór, mikill snjór og frost og kyrrð (og þar af leiðandi "white christmas" með Bing Crosby)
1. Að koma svangur úr sturtunni seinnipartinn á aðfangadag og finna ilminn af steikinni.(alltaf í fyrsta sæti)

Glöggir menn sjá að enginn er hér Jesús! og þar sem þetta er nú afmælið hans á hann kannski heima á þessum lista?! Hann er nú helvíti svalur kallinn. Hann komst ekki inn á topp tíu núna en það var mjög tæpt, verður þar kannski næst. Krissi og Skyrgámur eru nánast jafnir í 11.sæti.

19.12.04

Helga(r)húmor

Sjaldan nær hinn klassíski 5aura aulahúmor jafn miklum hæðum eins og í bröndurum í kringum nafnið mitt; Helgi. "yes það er komin helgi Helgi" og slíkar perlur sem maður fær aldrei leið á!

En núna um næstu helgi eru víst jólin og þau eru náttúrulega gædd ákveðinni helgi og má því segja að næsta helgi sé helgihelgi.
Það býður einhverjum upp á öflugasta helgarhúmor sem ég hef heyrt, þ.e. að spyrja mig: "Er ekki næsta helgi helgihelgi Helgi?"
þarna er komin setning í helgaaulahúmorsbransanum sem er að mínu mati seint hægt að toppa. 4 "helgi" í röð!

the beauty of the blog-pistill nr. 1

þá er hægt að hefjast handa við bloggið. ÉG held ég sé loksins farinn að læra á þetta!
ég hef lengi vitað af bloggi, en aldrei skilið það. En svo byrjaði ég að tékka á bloggi hjá fólki fyrir svona mánuði síðan og uppgötvaði smám saman yndi bloggsins! Sérstaklega þegar maður býr einn, sjónvarpið sökkar yfirleitt og ef enginn er í heimsókn og lærdómurinn búinn og síðasti tesopinn búinn, þ.e. ekkert að gera.
ÉG hef staðið mig að því að tala við sjálfan mig upphátt á slíkum stundum og það gengur náttúrulega ekki! Það er í lagi að spjalla við gæludýrin sín en þar sem mig langar ekki í svoleiðis útgerð þá er bloggið málið.
a.m.k. þangað til maður nælir sér í dömu!! þá sé ég til...
Skiptir svo sem engu hvort einhver muni lesa þetta eða ekki! maður er bara að spjalla við sjálfan sig að mörgu leyti. eða hugsa upphátt. blogg eða köttur? blogg!
En þetta kostar náttúrulega það að ég þarf að fá mér netið heim til mín (sem er svosem alveg kominn tími á).
en.. jæja.. bara fuck Bush og allt það..

tilraun

bráðum koma blessuð jólin
bráðum verðum ofsa löt.
allir fá þá eitthvað bragðgott
í það minnsta sósu og kjöt.
sósu og kjöt, sósu og kjöt, í það minnsta sósu og kjöt

búðarfólk af sælu syngur
selur allt sem selja má.
eitt er víst að alltaf verður
ofsa gaman hjá því þá.
hjá því þá, hjá því þá, ofsa gaman hjá því þá

jesúbarnið hrætt og hissa
horfir niður undrandi
"allri HELGI týnt þið hafið"
heyrist í því muldrandi.
muldrandi, muldrandi, heyrist í því muldrandi.

betri er sneið á gólfi en tóm hönd

ah! missti brauðið mitt á gólfið áðan með smjörhliðina niður. djöfullinn sagði ég en leiddi síðan hugann að því hversu margir deyja úr hungri á dag, sagði ekki meira og tók brauðsneiðina upp af gólfinu og át hana með bestu lyst..

18.12.04

what

testing 1,2,3
testing 1,2,3

ok

hversu flókið getur þetta vwerið

flokid

floknara